h1

Af Humri, söng og væmni

16. ágúst 2007

Ég er á Hornafirði og hér er skelfing fallegt. Sit í móttökunni og brosi mínu barbie-brosi, því það býr ekkert á bak við þetta ekki-spyrja-mig-bros. Blessaðir ferðamennirnir spyrja mig um hitt og þetta, og ég veit sjaldnast svarið, enda hef ég bara tvisvar áður komið hingað, á 14. og 15. ári; “Því miður ég bara veit það ekki”. Hljómar ekki vel, en ég held þó brosinu, aðalsmerki Eddunnar, allan hringinn. Brosið er þó stundum ekta, því hér er bakað alla daga.

Um daginn skelltum við krakkarnir okkur á flugeldasýningu á Jökulsárlóni á miðnætti. Upplifunin var nokkuð flott en þó líka nokkurt flopp. Kolniðarmyrkur og reykur úr flugeldum byrgði sín svo jökulinn naut sín ekki. Við tókum nú samt myndir…..en þær neita að komast sína leið útúr myndavélinni. Seinna meir..

Sólveig international kíkti við í vikunni. Ég skellti mér í sænks-finsk-danska picknick með henni og félögunum. Gaman að sjá kunnulegt andlit í bland við þau frönsku, spænsku og tékknesku.

Ég og ástmaðurinn erum í sundur-saman sambandi. Ekki það að við séum sífellt að hætta og byrja saman, þvert á móti, heldur býður vinna óperusöngvarans upp á langar dvalir erlendis. Þetta þýðir að við erum annað hvort alltaf saman, eða aldrei. Mikið er mér farið að leiðast bergmálið í hausnum á mér þessa dagana…..ég sakna Bjarna….. En eins og sumir vita erum við að fara að búa saman í haust. Tuttugu og tveggja ára í sambúð. Vá hvað ég hlakka til.

Haustið fer líka að skella á með nýjum skóla, nýjum söngkennara en sömu vinnunni þó. Rás 1, eða Hrafnista eins og stofnunin er venjulega kölluð. Ein yndislega konan varð einmitt 100 ára gömul á dögunum. Venjulega spjöllum við saman um Fjalla-Eyvind á milli þess sem við syngjum saman og hún hlær að klúrum hugsunum sínum. Ég er búin að lofa að syngja fyrir gamla fólkið í haust og er það með skemmtilegri loforðum.

Held þó satt best að segja að ég geri mér enga grein fyrir því hvað háskólanámið á eftir að taka mikinn tíma, á báðum vígstöðum. Flokkast víst líka sem nemandi á háskólastigi í tónlistarskólanum. Auðvitað verður þetta allt of mikið og auðvitað á ég eftir að farast úr stressi…..en auðvitað á ég samt líka eftir að njóta þess, eins og alltaf. Það er best að hafa mikið að gera og gleyma sjálfum sér um stund. Þá bara er maður.

Langar samt svo skelfilega líka að fara á samkvæmisdansa námskeið með mínum ektamanni, hreyfa mig, vera með í áhugaleikfélagi og læra að prjóna. En það er víst ekki á allt kosið. Ég verð seint ofurkona.Fyrst og fremst er ég nú samt að bresta í söng……..Get ekki beðið

Eigið þið nú öll góðar og blessaðar stundir.

P.s. Stefnan er tekin á Akureyrarvöku eftir hótelvinnunna. Hlakka til hafa útsýni til kunnulegra fjalla og ganga brosandi niður Gilið…jibbíjej!

Auglýsingar
h1

Svarthvíta hetjan mín!

10. ágúst 2007

Nú get ég ekki stillt mig lengur og feta í fórspor „moggabloggaranna“.

Hinn byltingarkenndi smokkur CSD500 kemur senn á markað

.

Elskan, viltu ekki bara stökkva í súpermannbúninginn og ég býð þín í hallarturninum á vesturströnd tunglsins!

http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1284677

h1

Daður, slabb, DBS og dót.

28. júlí 2007

Í alveg ótrúlega krúttlegri búð hér í borg fann ég þessa forláta skó. Eins og sjá má eru þeir tilvaldir til hjólreiða í íslenska slabbinu á komandi vetri svo ég minnist ekki á upplyftinguna. Hamingja og sæla með það! Fleira á www.phili-s.com

 

liljustigvel.jpg
Þannig er nefninlega mál með vexti að ástkær móðir ætlar á komandi hausti að gefa mér splúnkuglænýtt hjól að eigin vali. Mér líður næstum því eins og ég sé dekruð þegar ég hugsa um það…..svei mér þá. hjol.gif
Sá gripur verður valinn af mikilli kostgæfni enda um 11 ár síðan síðasti gripur kom heim í Duggugerði 5 með vörubílnum hans Munda. Ég sé fyrir mér kvenútgáfu af DBS hjólinu hans afa sem ég eignaði mér á síðari kópaskersárunum. Götuhjól með körfu og helst fótbremsum. Get hreinlega ekki beðið eftir sveittum stundum á blautum götum Reykjavíkur. Sjálfsagt fer nú mesti sjarminn af þessu fljótlega, en það er að duga eða drepast. Eitt er þó alveg víst, fleiri verða stundirnar á hjólinu heldur en þessar þrjár af árskortinu mínu í Baðhúsinu. Ojá.

 

Eins og áður sagði er ég í Vín hjá Bjarna í góðu yfirlæti. Í þessu dásemdar fríi reyni ég nú samt að verða sjálfri mér að einhverju gagni og læra dulitla þýsku. Sem liður í því námi gaf bóndi minn mér tölvuleik í anda Sims sem heitir Singles og gengur út á það að daðra og reyna að láta leikmenn fella hugi saman. Af þeim sökum kann ég nú frasa eins og „Von hinten umarmen“ eða; faðmlag aftan frá, og „Leidenschaftliche küss“ sem myndi útleggjast sem; Heitur erótískur koss. Já hún er ekki dónaleg þýskan, en ég er í það minnsta tilbúin í eldheitt samband (Bezhieung) á þýsku og geri aðrir betur. Svo ég minnist nú ekki á ótal orð yfir þrifnað á heimilinu, jább tilbúin í húsmóðurshlutverkið og allan pakkann. Svei mér þá.

 


Vonandi mun þessi orðaforði ekki nýtast mér á Hótel Eddu Nesjaskóla á komandi ágúst mánuði, en leikurinn verður spilaður áfram, ojá, þó ég verði seint kölluð tölvunörd, enda krefst leikurinn engra Microsoft Word hæfileika, og er það vel.

h1

Vínarborg

21. júlí 2007

Ég er að deyja- úr hita. Held mig helst innandyra á nærbol og brók. Hátt í 40° stig alla vikuna….má það? Ég á mér von um aðeins 30° og sú von á vist að rætast eftir helgi. Megi það verða.

Oft fylgir hita padda. Eins og þjóð veit er mér afskaplega illa við þær, í rauninni skíthrædd á afar kjánalegan hátt. Þetta vita þær blessaðar líka og sækja í mig meira en góðu hófi gengur. Stór padda á mér í rúmminu, járnsmiður að spríkla í hárinu á mér, dauð fluga í matnum mínum á veitingastað….bara í þessari ferð. Það reynir sífellt meira og meira á fóbíuna og það er kjánalegt að hrökkva við þegar húsfluga flýgur hjá. Eitthvað verður að gera….

Annars lifi ég í sumarlúxus. Í fríi og les, borða ís, læri tónlist, elda, bjór, dey úr hita, leyfi sólinni að ná húð minni í 2 mínútur á milli þess sem ég nýt borgarinnar. Ný búin að uppgvöta alsælu þess að skoða myndlistarsöfn, með loftkælingu. Hef farið oftar á söfn heldur en í H&M þetta sumarið, ætli það sé ekki í lagi með mig? 😉

Söngurinn skipar stórt hlutverk í sumar, búin að sjá La Finta Semplice sem Mozart samdi við þriggja mánaða aldurinn og óperettuna Paganini eftir Lehár. Gott og blessað það, en jafnast samt ekki á við að fylgjast með æfingum á Brúðkaupi Fígarós, það er frábært. Rétt næ generalprufunni áður en ég flýg heim 31. júlí. Auk þess hef ég verið í tímum hjá Rannveigu Fríðu og er að fást við Paminu og Donnu Önnnu, og ekki er það létt!

Ég held næstum að það sé of gott að vera í fríi, maður gæti alveg vanist því…..

En það verður samt líka gott að komast í sveitina til Mæju í ágúst, hlaupa um í visnaða grasinu og horfa á laufin roðna…og umfram allt, finna hafgoluna kæla sig vel niður á milli sveittra hótelvakta. Myndi alveg þiggja íslenskt sumar akkúrat núna, believe you me, það er best 🙂

h1

Feneyjar vs. Hrafnista?

19. júní 2007

Feneyjar eru fallegar og ljótar. En þessi vika var yndisleg. Það er gaman og klént að vera rómantískur í Feneyjum. Sennilega er þetta með verri stöðum til að vera einmanna á eða í ástarsorg. Hvert sem litið er vagga bátar ámátlega í gullfallegri lýsingunni og allt og víða eru pör í sleik. Kvöldgöngusleik, skemmtistaðasleik eða sleiksleik.

Stutt frá Feneyjum eru aðrar fallegar eyjar sem sérhæfa sig ýmist í dúkasaumi, glergerðarlist eða strandmenningu. Burano var ótrúleg eyja. Litlu húsin stóðu marglita í kyrrðinni meðan gamlar konur saumuðu ógnarhratt í dúka. Ófáir drykkjumenn reikuðu um sælir á svip og ef ég væri róni myndi ég klárlega flytjast þangað. Takk fyrir og amen.

Þó ég lægi í leti var Bjarni að vinna. Hann syngur um þessari mundir hlutverk Fáfnis í óperunni Sigfried eftir Wagner í óperuhúsinu í Feneyjum. Miðinn kostar litlar 17.800 krónur í venjuleg sæti og skyldi engan undra, allt er dýrt í Feneyjum. Það kostar meira að segja sitt að koma óæðri stykkjunum úr endanum á réttan stað en það er nú önnur saga. Ég skellti mér auðvitað á frumsýningu á þessu 5 og hálfs tíma stykki og sé ekki eftir því. Söngvararnir voru afbragðs góðir (þó enginn kæmist nálægt hetjunni minni ; ) en ekki minni athygli mína fengu fínu frúrnar á Ítalíu. Þetta var eins og að koma á tískusýningu ítölsku samsteypunnar. Pallíetturnar byrgðu svo sýn að varla sást í sviðið. Fljótlega varð mér starsýnt á konu í síðum hvítum pallíettujakka með stórum svörtum doppum. Við herlegheitin var þessi rúmlega sextuga kona í 15 sentímetra hælaskóm og með hárskart úr demöntum. Mesta athygli mína vöktu þó augabrýrnar sem sennilega voru málaðar með glimmerhvítum blýhanti því fagurhvítar voru þær. Töff, eða það hlítur að vera?

En allt tekur enda….og í dag er ég aftur mætt á Hrafnistu þar sem önnur og öllu ódýrari tíska ræður ríkjum. En heimilislegt er það heillin. Að þrífa róló-karamellur úr fölskum tönnum hlítur að vera skemmtilegt, sem það er. Ahhhhh……

h1

Fréttaritarinn, og hefst þá lesturinn.

29. maí 2007

Já Hrafnista. Það er költ, þar er fjör. Sjúddirarírei. Alveg sérdeilis dásamlegt. En verð ég þar í allt sumar??? onei. Þetta sumar verður sérdeilis flókið. Rvk-Feneyjar-Reykjavík-Vín-Höfn í Hornafirði. Held að það gerist ekki miklu betra, nema að ég sakna norðursins, náttúrunnar og alls. Austrið verður að duga í sumar. Og ekki alls ólíklegt að það verði kátt á hjalla þegar ég bregð mér í vinnu til hennar Maríu Vilborgar sem verður einmitt hótelstjóri á Hótel Eddu fyrir austan. Auðvitað skelli ég mér, o seisei jú.

En nú er skólinn búinn og í heildina er ég afskaplega sátt við veturinn. Lærði söng í eina 3 mánuði af þessum 9 í vetur hjá Jóni Þorsteinssyni vegna aumingjalegra veikinda minna, en svona er þetta nú bara einu sinni. Þessir mánuðir nýttust vel og tónheyrnin hjá Gunnsteini í Tónlistarskólanum í Reykjavík var tekin með trompi, og tregu brosi á vör. Veturinn endaði svo með ljóðatónleikum í sal skólans sem heppnuðust frábærlega, enda fanta fínir krakkar í þessu námi,….jú það er líf eftir Norðurlandið….svona allavega þegar helmingur nemenda er hvort eð er að norðan. Næsta vetur fæ ég nýjan kennara og það verður engin önnur en Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú, og ekki annað hægt en að vera í skýjunum yfir því!

Úr því að þetta er orðið fréttablogg er mér ekki til setunnar boðið nema að halda áfram takk fyrir.

Næsta vetur ætla ég að líka að hefja nám í félagsráðgjöf í HÍ og ekki fer ég að sleppa hendinni af Hrafnistu svo það verður nóg að gera, sem er oftast gott! Við Bjarni höfum svo loks fundið frábæra íbúð á Boðagranda með útsýni yfir sjóinn sem við verðum í næsta vetur. Gleði gleði. Svo herma nýjustu fregnir að Baldur bróðir (besti og Huldu vinur mesti) ætli að halda mér selskap þar í sumar í fjarveru óperusöngvarans ( karlmaður í karlmanns stað) og er það vel enda bróðir minn kappi góður þótt eigi sé hann skilgreindur sem bassi, baritón eða tenór.

En, út skal ek þann 9. júní og kem heim þann 17. Missi bæði af útskrift Baldurs og Önnu frænku, en Feneyjar bíða ekki. Chaio!

h1

Ó mig auma

4. apríl 2007

Það er víst líf eftir Barcelona, já alveg að næstu Barcelonaferð. Og ekki laust við að ég sé komin heim fyrir þó nokkrum dögum.

Um þessar mundir virðist hljóma úr öllum vinaáttum einhver óvissa um framtíðina og hið gullna val lífsins. Örlagakostinn sem við veljum okkur. Já, svo stórt hljómar það þegar velja skal nám í Háskóla, velja sér sumarvinnu eða velja til hvaða landa skal haldið í hinni einu sönnu heimsreisu. Jafnvel þeir sem þegar eru byrjaðir í námi efast. Í raun er þetta ótrúlegt; þetta er VAL! Það þarf enginn að óttast að geta ekki greitt skólagjöld, að fá ekki sumarvinnu eða komast ekki  í heimsreisu. Gamla fókið á Hrafnistu segir sögur af skorti, 17 systkinum og sjálfsþurftarbúskapi. Ég gleymi aldrei þegar afi Friðrik sagði mér með miklum trega að eftir fyrsta árið sitt á laugarvatni hafi hann unnið myrkranna á milli allt sumarið á kúabúi en þó hafi það ekki dugað fyrir næsta vetri. Hver sá sem þekkir þann öðlings kappa þarf ekki að efast um að lagt hafi verið hart að sér en uppskeran varð ekki eftir því.

Svona hugsanir flögra um hugann þegar ég reyni að ákveða einhver framtíðarplön í tilvistarkreppu minni í 75% vinnu og á námslánum takk fyrir og góðan daginn. Málið er bara það að valið er svo stórkostlegt, allt er í raun möguleiki. Eftir að hafa velt því lengi fyrir mér hvað væri skemmtilegt að læra fara allt í einu aðrar hugsanir að skjóta upp kollinum. Hvaða líf kýs ég mér sem afleiðing af þessu námi?Hvað er það!

Góð og sorgleg rök duga ekki neitt. Ég er alveg jafn ringluð, næstum því. Er að hugsa um að fara í félagsráðgjöf í Háskólanum næsta vetur og sumarið er allt að koma…þetta er allt að koma….

eða….

allavega páskarnir.